„Við erum ófeimin við að segja að við Íslendingar erum kristin þjóð,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi menntamálaráðherra. Hún kom inn á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar sem lögð var fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina þess efnis að öll lagasetning skuli ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar við á.

Ályktunin var lögð til á laugardag en í henni sagði að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og var ályktunin felld út á sunnudag.

Vill standa vörð um þjóðkirkjuna

Þorgerður sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag ekki hafa verið sammála ályktuninni. Engu að síður skammist sjálfstæðismenn sín ekki fyrir ályktunina.

„Saga okkar og samfélag er samofið kristinni. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkrikju íslands. Það er rétt að við ræddum mikið og kom út úr nefndinni að kristin trú ætti að vera viðmið við lagasetningu. Eftir stendur að við erum ófeimin við að segja að við Íslendingar erum kristin þjóð,“ sagði hún.