Mikilvægt er að stokka upp háskólakerfið, sameina háskóla og skoða upptöku skólagjalda. Þetta kom fram í máli þingmannanna Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Björgvins G. Sigurðssonar.

Þorgerður Katrín, þingkona Sjálftæðisflokksins, sagði á Alþingi í gær telja sameiningu háskólanna geta verið hagkvæma. Fyrir liggi að ekki verði hægt að auka framlag til þeirra og verði að stokka háskólakerfið upp með tilliti til upptöku skólagjalda.

Undir þetta tók Björgvin, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann benti hins vegar á að háskólakerfið hafi sprungið út á síðustu árum og fylgi því vaxtaverkir. Jafnframt sé ekki hægt að skorast undan skólagjaldumræðunni, að hans mati.

„Þetta eru jákvæðir fylgifiskar þess að háskólarnir sprungu út. En við þurfum að ígrunda vel næstu skref. Við getum ekki skorast undan því að taka afstöðu til samruna háskólanna svo eftir standi tveir, í mesta lagi þrír háskólar,“ sagði hann.