Þorgerður Katrín segir að bæði hún og Þorsteinn Pálsson hafi gengið til liðs við Viðreisn. Kemur þetta fram í tísti hennar á samfélagsmiðlinum Twitter.

Fyrrverandi leiðtogar Sjálfstæðisflokksins

Þorsteinn er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður Katrín er fyrrverandi varaformaður hans.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Viðskiptablaðið birti frétt um flokksskiptin fyrir nokkru síðan, en þangað til nú hefur Þorgerður ekki staðfest það sem heimildarmenn blaðsins höfðu sagt blaðinu.

Bæði Þorgerður og Þorsteinn hafa verið álitin jákvæð gagnvart auknu Evrópusamstarfi, líkt og helstu forystumenn Viðreisnar, sem gengu úr Sjálfstæðisflokknum í kjölfar harðnandi afstöðu flokksins gegn aðild að ESB.

Ef Þorgerður fer í framboð fyrir Viðreisn í í suðvesturkjördæmi, mun hún þar mæta Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins sem mun væntanlega leiða lista flokksins í því kjördæmi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins árum saman

Þorgerður var þingmaður í fjórtán ár, á árunum 1999 til 2013 og þar af menntamálaráðherra í sex ár, frá 2003 til 2009, en hún var varaformaður flokksins á árunum 2005 til 2010.

Þosteinn Pálsson var formaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1983 til 1991, þangað til hann tapaði í kosningaslag innan flokksins fyrir Davíð Oddssyni. Hann var þingmaður flokksins á árunum 1983 til 1999. Jafnframt var hann forsætisráðherra frá 8. júlí 1987 til 28. september 1988, en þar á undan fjármálaráðherra frá 1985 til 1987.