Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar gagnrýndi stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum á landsþingi Viðreisnar í Hljómahöllinni, Reykjanesbæ. Hún sagði ríkisstjórnarflokkanna „viðhalda rótgróinni sérhagsmunagæslu” með   „kyrrstöðustefnu”.

Öfugsnúið væri að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stefndi að því að lækka veiðigjöld fyrir ótímabundinn og ævarandi veiðirétt.

Stefnan ríkisstjórnarinnar stafaði líklega af ótta við breytingar að sögn Þorgerðar. Þá væri ekki óeðlilegt að hræðsla við breytingar sé meiri þar sem byggðin væri veikari. „Við höfum fylgt þeim hugmyndum eftir með raunhæfum tillögum til þess að stuðla að jafnari stöðu milli landsbyggðar og þéttbýlis.”

„Við höfum lagt til að fyrir langtíma nýtingarsamninga komi auðlindagjöld sem ráðist á markaði. Margir eru smeykir við að þetta gangi of nærri byggðunum. En er það svo?” spurði Þorgerður.

Korputorg eða uppbygging í Vestmannaeyjum

„Við skulum horfa til Vestmannaeyja. Hluti af verðmætasköpun sjávarútvegsins þar hefur safnast saman í margvíslegum og mismunandi rekstri á Korputorgi í Reykjavík. Í sjálfu sér teljum við það bæði gott og heilbrigt,” sagði Þorgerður Katrín.

Þar vísaði Þorgerður Katrín til þess að Guðbjörg Matthíasdóttir, stærsti eiganda Ísfélags Vestmannaeyja, keypti Korputorg árið 2016.

„En í okkar tillögum felst að stórum hluta af auðlindagjaldinu verði varið til innviðafjárfestingar á landsbyggðinni. Ef fjórðungnum af Korputorgsfjárfestingunni hefði í gegnum auðlindagjöld verið varið til innviðafjárfestinga í heilbrigðisþjónustu og samgöngum fyrir Vestmannaeyinga væri það samfélag betur sett eftir breytingar en fyrir. Annars staðar gæti slík innviðastyrking í gegnum auðlindagjaldið stuðlað að fjárfestingu í nýjum atvinnutækifærum,” sagði Þorgerður.

„Okkar stefna er því í raun sóknarstefna fyrir landsbyggðina en kyrrstöðuhugsun ríkisstjórnarinnar er varnarstefna, þar eins og annars staðar,” sagði Þorgerður enn fremur.

Sjá má ræðu Þorgerðar Katrínar í heild sinni hér.