Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ráðin forstöðumaður nýs mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins (SA). Menntasviðið er liður SA í aukinni áherslu á menntamál og nýsköpun. Þorgerður hefur störf 1. september næstkomandi.

Þorgerður segir á vef SA :

„Ég hlakka til að takast á við spennandi og mikilvægt verkefni í þágu atvinnulífsins. Efling menntunar er tvímælalaust liður í að tryggja undirstöður bæði atvinnulífs og samfélags til lengri og skemmri tíma.“

Sótti um annað starf í fyrra

Þorgerður tók sæti á Alþingi árið 1999 og var mennta- og menningarmálaráðherra árin 2004 til 2009. Hún ákvað hins vegar ekki að gefa kost á sér á lista Sjálfstæðisflokksins í síðustu þingkosningum og hætti á þingi. Hún var á meðal þeirra fjögurra umsækjenda sem helst komu til greina sem forstjóri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu í fyrra. Halldór Guðmundsson var hins vegar ráðinn í stöðuna í maí í fyrra.