Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, lagði fram spurningu fyrir Ögmund Jónasson innanríkisráðherra á Alþingi í dag hvort farið hafi verið yfir ummæli Haraldar Sigurðssonar eldfjallasérfræðings um hugsanleg eldgos ofan Hafnarfjarðar. Hún vill sömuleiðis vita hvort viðbragðsáætlanir liggi fyrir vegna slíkra hamfara.

Þetta er á heimaslóðum Þorgerðar, sem býr við Mávahraun í Hafnarfirði.

Haraldur hefur gagnrýnt Almannavarnir fyrir að huga ekki að hættunni sem steðjar að höfuðborgarsvæðinu þegar eldsumbrot verð anæst á Reykjanessvæðinu og yfirvöld fyrir að hafa leyft byggingar á stöðum sem ekki ætti að byggja á.

Haraldur sagði í samtali við Stöð 2 í sumar undarlegt að í skýrslu Almannavarna um áhættumat á höfuðborgarsvæðinu sé eldvirkni mjög lítið til umfjöllunar. Hann telur þvert á móti hættuna á eldsumbrotum miklu meiri en þar er talið, sérstaklega á Krýsuvíkursvæðinu. Þar eru sprungur sem ná í gegnum Heiðmörk.

Haraldur sagði hraunrennsli yfirleitt ekki lífshættulegt fólki, þ.e.a.s. ef það forðar sér.