Þórir Hákonarson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) frá árinu 2007, hefur ákveðið að láta af störfum frá og með 1. mars næstkomandi. Þetta kemur fram í pistli sem hann skrifar á vefsíðu sambandsins í dag.

Þar segist Þórir hafa íhugað að skipta um vettvang frá því seint á síðasta ári og hann telji að nú, í upphafi nýs starfsárs, sé rétt að stíga skrefið.

„Ég lít svo á að ég muni ekki segja alfarið skilið við knattspyrnuna, áhuginn á íþróttinni er til staðar og engu minni en áður og ég mun örugglega hitta mörg ykkar á vellinum um ókomna tíð,“ segir Þórir.