Þórir Garðarsson, stjórnarformaður hópbifreiðafyrirtækisins Gray Line, virðist hugsi yfir ummælum Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), sem fram komu í frétt Viðskiptablaðsins í gær. Þórir skrifar um málið í færslu á Facebook .

Jóhannes hafði bent á að Þórir hefði sjálfur, sem varaformaður stjórnar SAF á sínum tíma, átt þátt í að móta afstöðu samtakanna til deilumáls Gray Line og Isavia. Þórir hafði gagnrýnt afstöðu samtakanna harðlega eftir að SAF synjaði beiðni Gray Line um þátttöku í kostnaði málareksturs félagsins við Isavia, en Gray Line gekk úr SAF vegna málsins.

Þórir segir það stemma hjá Jóhannesi að hann hafi átt þátt í að móta afstöðu SAF. „Ég tók svo sannarlega þátt í að andmæla gjaldtökuáformum Isavia ásamt fjölda annarra. En hvað skiptir það máli? Er hann að gefa í skyn að ég hafi einn míns liðs snúið SAF gegn Isavia? Er hann að reyna að réttlæta að núverandi stjórn SAF og sína skoðum um að baráttan gegn Isavia-okrinu væri einkamál Gray Line og Isavia?"

Hiti í félagsmönnum

Þórir lýsir miklum hita á félagsfundi í desember 2017, sem haldinn var í kjölfar tilkynningar Isavia um gjaldtökuáform á fjarstæðum hópbifreiða við flugstöð Keflavíkurflugvallar. „Mikill hiti var í fundarmönnum, sem létu fulltrúa Isavia heyra það óþvegið, hann gaf ekkert fyrir gagnrýnina og gat engin rök fært fyrir aðferðafræðinni eða forsendum gjaldsins." Þórir bendir jafnframt á að Jóhannes hafi ekki verið kominn til starfa hjá SAF þegar sá fundur var haldinn.

Þórir segir að stuttu eftir félagsfundinn hafi stjórn SAF fundað og samþykkt ályktun sem gagnrýnir upphæðir gjaldtöku Isavia, samráðsleysi þeirra og aðferðferðarfræði. Hann segir algjöra samstöðu hafa verið um málið í stjórn SAF og meðal félagsmanna á þeim tíma.

Að sögn Þóris er það rangt hjá Jóhannesi, haldi hann að um sé að ræða eitthvert einkamál hans og Gray Line, þar sem hann hafi ráðið för um afstöðu SAF. „Þetta virkar á mig eins og örvæntingarfull leið til að reyna að réttlæta sniðgöngu núverandi stjórnar og framkvæmdastjóra gagnvart Isavia-okrinu. Í því máli hafa þau ekki lyft litla fingri, meðan Gray Line hefur tekið á sig milljóna króna kostnað við að berjast fyrir hagsmunum sínum og yfir eitt hundrað annarra fyrirtækja í SAF."

Kynnisferðir áttu fulltrúa í stjórn SAF

Þá bendir Þórir á, að þrátt fyrir að Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, hafi ekki átt sæti í stjórn SAF þegar ósk Gray Line um fjárstuðning var tekin fyrir, þá hafi Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, þáverandi rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða, setið í stjórn SAF á þeim tíma. „[Jóhannes] sleppir að geta þess að undirmaður Björns, rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða, sat á þeim tíma í stjórn SAF og hafnaði því að styðja okkur í baráttunni."

Að lokum veltir Þórir því fyrir sér hvers vegna ekkert heyrist frá stjórn SAF um málið. „Þeir voru jú kosnir til að gæta heildarhagsmuna atvinnugreinarinnar frekar en sérhagsmuna fárra. Hvers vegna hefur núverandi stjórn SAF ekki ályktað neitt gegn Isavia-okrinu?"