Enn hefur Þorláksbúðarfélagið ekki skilað inn uppgjöri og yfirliti ársreikninga vegna 9,5 milljóna króna styrkja til framkvæmdanna í Skálholti. Þetta staðfesti Sveinn Arason Ríkisendurskoðandi í samtali við Viðskiptablaðið rétt í þessu. Embættið hefur ítrekað farið fram á að félagið skili umræddum gögnum vegna framkvæmdanna.

Þann 7. maí síðast liðinn kom fram í Morgunblaðinu að verið væri að klára að setja upp bókhaldið og gera það klárt í hendur Ríkisendurskoðunar eins og haft var eftir Sr. Agli Hallgrímssyni, sem er annar meðlimur Þorláksbúðarfélagsins ásamt Árna Johnsen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Þorláksbúðarfélagið hefur verið á fjárlögum hjá ríkinu frá árinu 2008 og alls fengið úthlutaðar 9,5 milljónir vegna verkefna á sviði Fornleifaverndar ríkisins. Til viðbótar hefur félagið fengið 4,5 milljóna króna styrk frá þjóðkirkjunni til byggingar Þorláksbúðar.