Þorlákur Runólfsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Straums fjárfestingabanka, en þorlákur hefur starfað hjá Banque Havilland, sem áður hét Kaupþing í Lúxemborg, frá árinu 2009.

Þorlákur Runólfsson.
Þorlákur Runólfsson.

Einnig hefur verið gengið frá ráðningu þeirra Ásgeirs Baldurssonar og Jóns Eggerts Hallssonar, sem báðir hafa starfað hjá ráðgjafafyrirtækinu Expectus. Ásgeir mun starfa í fyrirtækjaráðgjöf Straums og Jón Eggert á markaðsviðskiptasviði bankans. Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums staðfestir þetta í samtali við VB.is.

Töluvert hefur verið um mannabreytingar hjá Straumi upp á síðkastið. Haraldur I. Þórðarsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, hætti störfum í janúarlok ásamt Steingrími Arnari Finnsyni. Fyrir skömmu hættu tveir aðrir starfsmenn markaðsviðskipta, Þorbjörn Atli Sveinsson og Hannes Árdal. Þá hætti Páll Ragnar Jóhannesson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar bankans, störfum á svipuðum tíma og þeir Haraldur og Steingrímur hættu. Leó Hauksson tók við sem framkvæmdastjóri af honum.

Ásgeir hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja bæði hérlendis og erlendis í fjármálastarfsemi, tryggingastarfsemi, öryggisstarfsemi, flugrekstri og ferðaþjónustu. Hann var forstjóri VÍS á árunum 2005- 2006 og sat m.a. í stjórnum Icelandair Group, Frumherja og SPRON.

Jón Eggert starfaði í í verðbréfamiðlun Íslandsbanka með megináherslu á miðlun íslenskra ríkisskuldabréfa á árunum 2005-2009 og var framkvæmdastjóri og eigandi J Bond partners árin 2009 til 2013. Árið 2013 starfaði hann í fyrirtækjaráðgjöf MP banka.