Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, ætlar ekki að hætta sem forsætisráðherra þótt Socialistisk Folkaparti hafi ákveðið að ganga úr ríkisstjórninni. Hún greindi frá þessu á blaðamannafundi sem hófst klukkan hálfeitt að dönskum tíma (hálftólf) að íslenskum.

Thorning-Schmidt mun mynda nýja ríkisstjórn á grunni þeirra flokka sem eftir sitja, það er Sósíaldemókratar og Radikal Venstre. Sú ríkisstjórn verður minnihlutastjórn en Socialistisk Folkaparti mun verja hana falli. Thorning-Schmidt svaraði því ekki þegar hún var spurð að því hvenær nýja ríkisstjórnin yrði mynduð. „þegar hún er tilbúin,“ sagði hún einungis þegar hún var spurð út í málið á blaðamannafundinum. Hún sagði að Socialistisk Folkaparti hefði haft mjög góð áhrif á ríkisstjórnina og hún vildi byggja á þeim grunni sem lagður hefði verið í tíð SF.

Hún var einnig spurð að því hvort hún sæi fyrir sér að SF kæmi einhvern tímann aftur að ríkisstjórninni en svaraði því til að það væri ekki hægt að svara þeirri spurningu á þessum tímapunkti.