Sessor hefur ráðið til sín Þórodd Björgvinsson sem sviðsstjóra hugbúnaðarlausna þar sem hann mun leiða uppbyggingu á hugbúnaðarlausnum félagsins.

Þóroddur hefur reynslu á sviði upplýsingatæknimála og m.a. stýrt þróun á þekktum lausnum eins og Bakverði. Hann starfaði áður sem verkefna- og vörustjóri hjá Exigo og þar á undan hjá Advania sem vörustjóri og hugbúnaðarsérfræðingur. Þóroddur er með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands.

„Þetta er gríðarlega skemmtilegt tækifæri hjá framsæknu og spennandi fyrirtæki með skýra sýn á upplýsingatækni og það hvernig hún verði best nýtt viðskiptavinum til hagsbóta. Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni hjá Sessor," er haft eftir Þóroddi Björgvinssyni.

„Sessor býður fyrirtækjum uppá sérfræðiþjónustu í upplýsingatækni og stoðþjónustum. Það er því mikill fengur að fá Þórodd til liðs við okkur en með öflugri uppbyggingu á sérhæfðum hugbúnaðarlausnum náum við að auka enn frekar árangur viðskiptavina okkar,“ segir Brynjar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sessor.

Sessor er óháð ráðgjafar-og þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni og stoðþjónustum sem leggur áherslu á að auka sjálfvirkni, bæta rekstraröryggi og lækka heildarrekstrarkostnað fyrirtækja.