Þórólfur Árnason hefur komið víða við í íslensku atvinnulífi. Hann starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Marel, sem markaðsstjóri hjá Esso, hann var einn eigenda og fyrsti forstjóri símafyrirtækisins Tals, var forstjóri Icelandic Group í hálft ár og loks forstjóri Skýrr á árunum 2006-2009. Þá var Þórólfur sem kunnugt er borgarstjóri í Reykjavík í tæp tvö ár, frá byrjun árs 2003 til loka árs 2004.

Aðspurður segist hann kunna vel við sig í núverandi hlutverki, sem stjórnarformaður Isavia og í fleiri félögum.

„Margt í þessu hefur verið svipað öðru sem ég hef verið í í öðrum rekstri, t.d. tekjumyndun vegna þjónustu, vegna fasteignatekna, alþjóðlegir samningar, samskipti við banka og fleira,“ segir Þórólfur.

„Það að hafa unnið í opinberum rekstri hefur líka undirbúið mig til að sýna virðingu þeirri reglufestu sem þarf að vera, s.s. bókanir á ákvörðunum. Samskipti við eigendur, eftirlitsaðila og stjórnvöld þurfa einnig að vera mjög formföst. Bakgrunnur minn í þessu hefur reynst vel. Ég hef áður sett mig inn í rekstur fyrirtækja í nýju starfi þannig að það hefur ekki reynst erfitt.“

Fyrir utan stjórnarsetu í Isavia og Fríhöfninni situr Þórólfur jafnframt í stjórn Borgarleikhússins, í stjórn Innovit auk þess sem hann hefur sinnt ráðgjafarstörfum, m.a. í skipulagsbreytingum á Landsspítalanum. Þá hefur Þórólfur einnig komið að uppbyggingu Auðlinda-náttúrusjóðs, stofnun starfsendurhæfingar hjá Hlutverkasetri og Jarðvarmaklasans, sem Michael Porter og Gekon komu á legg.

„Ég hef verið að sinna hinum ýmsu verkefnum og haft gaman af,“ segir Þórólfur þegar þessi verkefni ber í tal.

„Í Borgarleikhúsinu hefur gengið vel að sameina listræna stjórnun rekstrar- og markaðsmálum. Það er mikið að gerast í nýsköpunargeiranum og þar eru mörg spennandi verkefni. Þá er ég afar stoltur af því að hafa verið kallaður til verka þegar skipulagsbreytingar og mannaráðningar eru annars vegar, m.a. á Landsspítalanum. Það hefur verið ánægjulegt að sjá hvernig rekstur Landspítalans hefur tekið stakkaskiptum, fyrst undir forystu Huldu Gunnlaugsdóttur og síðar Björns Zoëga.“

Starfslok þín hjá Tal, í borginni, hjá Icelandic Group og hjá Skýrr bar að með snöggum hætti og það gekk sá brandari að þú væri mest rekni forstjóri landsins. Hvernig bregst þú við því?

„Vistaskipti hafa stundum orðið með öðrum hætti en ég hefði óskað en það þýðir ekkert að dvelja við það. Það er rétt að ég hef verið í um 2-5 ár á hverjum stað, lengst í sjö ár hjá Marel,“ segir Þórólfur.

„Ég er fljótur að setja mig inn í ný mál en ég hef líka sóst eftir öðrum störfum á þessu tímabili. Ég hef hins vegar ekki áhuga á öllum störfum. Ég get leyft mér það í dag, fyrst og fremst vegna aðkomu minnar að Marel á sínum tíma. Ég fjárfesti í Marel á upphafsdögum þess rekstrar og get þess vegna leyft mér að velja mér verkefni og hafa þá það frjálsræði sem því fylgir.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fjallar Þórólfur um uppbyggingu Isavia þar sem hann er stjórnarformaður, fyrirhugaðar breytingar á Keflavíkurflugvelli og fjölgun ferðamanna auk þess sem hann svarar spurningum um brotthvarf sitt úr stóli borgarstjóra og snögg starfslok sín hjá nokkrum fyrirtækjum sem hann hefur verið í forsvari fyrir. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.