Eins og flestum er eflaust vel kunnugt sagði Þórólfur Árnason af sér sem borgarstjóri í nóvember 2004 í kjölfar mikillar umræðu um störf hans sem markaðsstjóri Olíufélagsins (Esso) á þeim tíma sem stórfellt samráð stærstu olíufélaganna stóð yfir.

Það kemur eilítið hik á Þórólf þegar blaðamaður rifjar upp þetta tímabil, þ.e. síðustu daga hans í stóli borgarstjóra. Hann bregst þó fljótt við og rifjar upp að margir hafi talið hann þurfa að svara fyrir starfsemi olíufélaganna, nokkuð sem hann hafi þó aldrei ætlað sér að gera enda hafi það engin áhrif haft á störf hans fyrir borgina.

„Ég taldi þó rétt að víkja þar sem ég vildi ekki að þessi umræða hefði neikvæð áhrif á starf mitt sem borgarstjóri,“ segir Þórólfur í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

„Ég tel þó að sú ákvörðun að hætta hjá borginni á þessum tíma hafi verið rétt. Þegar ég hætti voru 76% borgarbúa ánægðir með mín störf skv. könnun Gallups og aðeins 6% óánægðir.“

En það getur varla verið gaman að fara úr stóli borgarstjóra með þessum hætti þegar vel gengur að öðru leyti?

„Nei, alls ekki. En ég tók þarna rétta ákvörðun og það tekur það enginn frá manni,“ segir Þórólfur.

Fannst þér þú ekki njóta stuðnings og trausts þáverandi meirihluta í borgarstjórn?

„Það eru að verða liðin átta ár síðan og það er flókið að rifja það upp,“ segir Þórólfur.

„En menn geta svo sem getið í eyðurnar ef þeir vilja. Þessum kafla er þó lokið í mínu lífi. Ég hef síðan þá haft möguleika á því að fara út í stjórnmál. Mér hafa verið boðnir bæjarstjórastólar en mér hefur ekki fundist áhugavert að taka þau verkefni að mér.“

Aðspurður segir Þórólfur þó að þessi stutti tími sem borgarstjóri hafi verið mjög skemmtilegur en sennilega hafi hann aldrei unnið jafn mikið og einmitt þá.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fjallar Þórólfur um uppbyggingu Isavia þar sem hann er stjórnarformaður, fyrirhugaðar breytingar á Keflavíkurflugvelli og fjölgun ferðamanna auk þess sem hann svarar spurningum um brotthvarf sitt úr stóli borgarstjóra og snögg starfslok sín hjá nokkrum fyrirtækjum sem hann hefur verið í forsvari fyrir. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.