Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir setur fyrirvara við nef- og munnúða sem á að virka sem fyrirbyggjandi vörn gegn kórónuveirunni að því er Vísir fjallar um.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hefur Viruxal, dótturfélag Kerecis sett úðann á markað, en hann á að hjálpa til við að minnka veirumagn í efri öndunarfærum, og er vísað til rannsókna sem sýni a hann geti rofið ytri himnu veirunnar.

„Úðinn hefur meðal annars verið rannsakaður á rannsóknarstofu hjá Utah State University og leiddu þær rannsóknir í ljós að úðinn eyðir 99.97% af SARS-CoV-2,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

Þórólfur segist hafa tekið eftir að þar sé talað um virkni efnisins í úðanum gegn veirunni í tilraunaglösum, en ekki liggji fyrir niðurstöur úr tilraunum í mönnum.

„Þannig að ég tel það varhugavert að vera að auglýsa svona vörur hjá mönnum og gefa fólki von um að það verndi og virki á ákveðinn máta þegar ekki er búið að rannsaka það,“ segir Þórólfur. „Það gildir um öll lækningarlyf. Þannig að ég set stór spurningarmerki við þetta. Það kann vel að vera að þetta virki en það þarf þá að sýna fram á það með rannsóknum.“