Þorpið vistfélag hefur keypt JL húsið við Hringbraut 121 af Myndlistaskólanum í Reykjavík og Íslandsbanka. Kaupin eru gerð með fyrirvara um fjármögnun og áreiðanleikakönnun.

Þorpið segist í tilkynningu ætla að breyta efri hæðum hússins í fjölbreytilegar og vandaðar miðborgaríbúðir en fyrir liggur jákvæð afstaða skipulagsfulltrúa til þess og drög að uppbyggingarsamningi milli Þorpsins og Reykjavíkurborgar um verkefnið.

„Yrki arkitektar hafa gert frumtillögur að íbúðum í húsinu þar sem það er fært nær upprunalegu útliti. Þær tillögur gera ráð fyrir íbúðum sem eru frá 50 til rúmlega 100m² að stærð.“

Einnig er gert ráð fyrir að breyta bílastæðum sunnan við húsið í skjólgott grænt svæði sem mun nýtast bæði íbúum og Vesturbænum í heild. Húsið að garðinum mun stallast upp þannig að allar íbúðir hafa lítinn garð eða pall í suður. Norðan megin hússins er gert ráð fyrir svölum með útsýni.

Húsið var byggt árið 1948 af Vikurfélaginu hf. sem vörugeymsla og skrifstofuhús. Vikurfélagið varð síðar Jón Loftsson hf. sem húsið var síðar kennt við. Arkitekt hússins er Sigmundur Halldórsson og er húsið í síð-funkis stíl.

Íslandsbanki auglýsti nýlega eignir á jarðhæð, fjórðu og fimmtu hæð í húsinu til sölu en bankinn keypti þær á 350 milljónir króna í nauðungaruppboði fyrr á árinu. Þá hafði Myndlistarskólinn í Reykjavík auglýst eignir á annarri og þriðju hæð JL-hússins til sölu.

Þorpið vistfélag hefur á síðustu þremur árum vaxið í það að verða einn stærsti einstaki uppbyggingaraðili á íbúðarhúsnæði í Reykjavík en félagið hefur í eignasafni sínu í dag um 1.500 íbúðir í byggingu, hönnun, skipulagi og þróun eða alls um 120 þúsund fermetra ofanjarðar.

Lang stærsta verkefni Þorpsins er á Ártúnshöfða þar sem félagið á byggingarrétt að um 80 þúsund fermetra ofanjarðar. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir við fyrstu 170 íbúðirnar hefjist í vor.