Bretland og Ísland eiga langa og flókna sögu sín á milli. Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, segir aðstæður og hagsmuni eyríkjanna tveggja að mörgu leyti sambærilega. Sem eyja hafi Bretland, líkt og Ísland, átt mikið undir frjálsri verslun við umheiminn.

„Sú framþróun sem náðst hefur á Íslandi hefur komið til vegna fríverslunar og viðskiptasamninga. Bretland lítur sannarlega á sig sem kyndilbera fríverslunar. Því frjálsari verslun, því betra,“ segir Nevin, og bætir við að alþjóðaviðskipti séu helsti drifkraftur framþróunar þróunarlanda í dag.

Þegar talið berst að þorskastríðunum segist Nevin ekki telja að nokkuð eimi eftir af úlfúð Breta í garð Íslendinga, né öfugt, vegna þeirra. Því til stuðnings bendir hann á víðtæka fjárfestingu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í bresku sjávarþorpunum Hull og Grimsby.

„Það er tvennt sem alltaf er komið inn á í umræðum um samband Bretlands og Íslands. Annað er þorskastríðin, og hitt er sigur Íslands á Englandi í Evrópumeistarakeppninni í fótbolta 2016, en alltaf þó í góðu gamni og af vinsemd,“ segir hann.

Á topp 20 yfir líkasta hugarfarið
Nevin segir samningaviðræður Bretlands við Ísland eftir Brexit ganga vel, og stöðuna góða hvað varðar samband Íslands og Bretlands. „Það er metnaður fyrir þessu beggja vegna borðsins, og samhljómur um að ljúka þessu eins fljótt og auðið er.“

Vonir hafi jafnvel staðið til þess að samningurinn yrði klár fyrir lok síðasta árs, en það hafi ekki gengið eftir. „Það hafði hins vegar verið gerður svokallaður brúarsamningur okkar á milli, sem tók gildi um áramótin og tryggir sem minnsta röskun viðskipta þar til endanlegur samningur er í höfn.“

Hann telur nægan samhljóm vera til staðar milli markmiða Bretlands og Íslands til að hægt verði að ljúka samningnum í mikilli sátt, þótt eðlilega hafi ekki náðst lending á öllum sviðum enn sem komið er.

„Viðsemjendur munu alltaf vilja vernda hagsmuni síns lands sérstaklega á vissum sviðum, tilteknar atvinnugreinar eða viðkvæm mál. Almennt séð deilum við hins vegar sýn á ágæti og mikilvægi fríverslunar, auk margra annarra gilda og viðhorfa,“ segir Nevin og klykkir út með að í hans huga sé Ísland meðal þeirra 20 landa sem hafa hvað líkast hugarfar við Bretland.

Nánar er rætt við Nevin í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .