Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýna að þorskstofninn við landið er að stækka annað árið í röð. Vísitölur síðustu tveggja ára eru þær hæstu frá upphafi rannsóknanna árið 1985, og meira en tvöfalt hærri en árin 2002 til 2008. Um þetta er fjallað í Fréttablaðinu í dag.

Um er að ræða niðurstöður stofnmælinga á botnfiski á Íslandsmiðum, eða marsralls, sem fór fram í 32. sinn dagana 24. febrúar til 19. mars. Fjögur skip tóku þátt í verkefninu; rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og togararnir Bjartur NK og Ljósafell SU. Togað var með botnvörpu á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið og alls tóku um 90 manns þátt í verkefninu.

Magn fæðu í þorski var með því mesta sem sést hefur í tvo áratugi og munar þar mest um loðnu sem er lang mikilvægasta bráð þorsksins á þessum árstíma.