Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að aðgerðir stjórnarinnar ættu að létta nokkuð undir með skuldsettum heimilum. „Helstu áhyggjuefni í tengslum við þessi áform voru þau neikvæðu áhrif sem þær kynnu að hafa á verðbólguhorfur og lánshæfismat ríkissjóðs. Ávinningur af skuldaniðurfellingu sem þessari er fljótur að glatast leiði hún til mikillar aukningar verðbólgu,“ segir Þorsteinn. Miðað við mat Analytica á þjóðhagslegum áhrifum þessara aðgerða virðist þær hins vegar hafa óveruleg áhrif á verðbólguhorfur og því ættu þessi áform ekki að hafa neikvæð áhrif, t.d. hvað varðar gerð kjarasamninga. „Þá virðist þannig búið um fjármögnun þessara aðgerða að þær ættu ekki að hafa nein áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir hins vegar ljóst að þessar aðgerðir muni hafa neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð, sem aftur geti veikt forsendur til afnmáms gjaldeyrishafta. „Það ætti hins vegar að vera auðvelt fyrir ríkisstjórnina að sporna gegn því með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum,“ segir Þorsteinn. Þess vegna sé enn mikilvægara að þær hugmyndir sem hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur lagt fram um leiðir til að draga úr kostnaði í ríkisrekstrinum nái fram að ganga.

„Þá má ekki gleyma því að aukinn skattlagning á fjármálastofnanir hittir ekki aðeins fyrir þrotabú föllnu bankanna heldur einnig starfandi fjármálafyrirtæki. Það mun að öðru óbreyttu leiða af sér hærra vaxtastig en ella sem eru ekki góðar fréttir fyrir fjárfestingu. Eitt helsta áhyggjuefni fyrirtækja í dag er hár fjármagnskostnaður og jafn umfangsmikil skattahækkun og hér er um að ræða á fjármálageirann er ekki að hjálpa til við að lækka hann,“ segir Þorsteinn.