Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir mikilvægt að launaþróun allra hópa sé sambærileg þar sem efnahagslegur stöðugleiki sé sameiginleg ábyrgð allra á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

„Við höfum miklar áhyggjur af stöðunni en vísum á bug fullyrðingum um að við séum með okkar útreikningum að ráðast sérstaklega að láglaunafólki eða leggja ábyrgðina í hendur tilteknum hópum í þjóðfélaginu,“ segir Þorsteinn.

Í útreikningum SA kemur fram að 30% launahækkun myndi á tveimur árum auka kaupmátt um 2% á meðan 3,5% hækkun á ári myndi skila 4% kaupmáttaraukningu. Auk þess kom fram að verðbólga færi í 27% sem myndi hækka skuldir heimilanna um 500 milljarða króna.

Þorsteinn segir forystu verkalýðshreyfingarinnar ekki geta gefið sig ábyrgðarleysinu algjörlega á vald. „Afleiðingar tuga prósenta launahækkana yrðu í okkar huga skelfilegar.“