Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að gerðardómur um laun háskólamanna og hjúkrunarfræðinga hafi hleypt vinnumarkaðnum í uppnám með úrskurði um launahækkanir langt umfram það sem samningar á almennum markaði gerðu ráð fyrir. Þetta kemur fram í leiðara hans í fréttabréfinu „Af vettvangi“ sem gefið er út af SA.

Þar segir hann að Íslendingar séu á slæmri vegferð. „Það vilja allir rétta sinn hlut og troðast fram fyrir í röðinni í stað þess að leggja sitt af mörkum til að skapa aðstæður þar sem allir hagnast,“ skrifar hann.

Þorsteinn bendir á að laun hafi verið tuttugufölduð á tíunda áratugnum en kaupmáttur hafi aukist um innan við eitt prósent á tíu árum. Nú sé lagt upp í sambærilegan leiðangur þar sem allir muni tapa, skuldir fólks og fyrirtækja stökkbreytast og atvinnutækifæri glatast.

„Nú er ekki rétti tíminn til að leita sökudólga en það blasir við að þetta gengur ekki lengur. Jafnframt er ljóst að misræmi í launaþróun einstakra hópa getur ekki orðið grundvöllur að sátt á vinnumarkaði. Hækkanir launa hafa ekki tekið mið af stöðu efnahagslífsins, sveitarfélögin ráða ekki við þær eins og sjá má af afkomu þeirra og ríkið mun ekki gera það heldur,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að staðan sé vond en hún undirstriki að breyta verði því hvernig samið sé um kaup og kjör á almennum og opinberum markaði. Verði haldið áfram á sömu braut muni það skila fólki og fyrirtækjum minna en engu og skerða lífskjör á Íslandi í stað þess að bæta þau.

Leiðara Þorsteins má lesa hér .