Það kemur hik á Þorstein Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóra og stofnanda tölvuleikjaframleiðandans Plain Vanilla, þegar blaðamaður spyr hvað hann sjái fyrir sér að fyrirtækið geti orðið stórt fyrirtæki og ljóst að hann vill fara varlega í digurbarkalegar yfirlýsingar.

Eftir smá umhugsun segir hann að notendur QuizUp geti verið á milli 1 og 100 milljónir, og allt þar á milli.

„Mig langar auðvitað sjá 100 milljónir notenda, sjá fólk kynnast betur og jafnvel giftast eftir að hafa kynnst við það að spila spurningaleiki,“ segir Þorsteinn sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Við erum í raun að búa til Trivial Pursuit 21. aldarinnar fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Munurinn er þó sá að þú getur valið úr hundruðum flokka en ekki þeirra sex sem þú velur í borðspilinu. En helsti munurinn er þó sá, eins og ég fór yfir áðan, að þú getur spilað við ógrynni einstaklinga hvar sem er í heiminum og kynnst þeim í kjölfarið ef þú vilt.“

Sérðu fyrir þér að vera áfram með höfuðstöðvar á Íslandi?

„Já, mig langar til að vera hérna. Ég á börn hér og þetta er íslenskt fyrirtæki,“ segir Þorsteinn.

„Ég og aðrir hér í fyrirtækinu þurfum þó að vera mikið í útlöndum og það er nauðsynlegt að fara reglulega út og halda samskiptum við okkar helstu bakhjarla. Við höfum séð fyrirtæki eins og CCP takast þetta ágætlega, að vera með höfuðstöðvar á Íslandi þó svo að þeir séu alþjóðlegt fyrirtæki. Þeir eru góð fyrirmynd fyrir okkur.“

---

Þorsteinn Baldur er sem fyrr segir í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar fer hann yfir atburðarásina frá því að félagið var stofnað í lok árs 2010, hvernig því tókst að rífa sig upp úr vonlausri stöðu og ná í erlent fjármagn til að þróa næsta verkefni; hvernig Þorsteinn sér mögulega framtíð Plain Vanilla fyrir sér og margt fleira. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.