„Skandinavía er á góðri leið með að verða eitt af lykilsvæðum í bransanum,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi leikjafyrirtækisins Plain Vanilla. Fyrirtækið var í síðustu viku valið sprotafyrirtæki ársins á Nordic Startup Awards sem fram fór í Osló í Noregi í síðustu viku. Þetta voru aðalverðlaun hátíðarinnar.

Þorsteinn segir í tilkynningu gaman að vera í hópi fólks og fyrirtækja sem eru að gera frábæra hluti og hafi miklar breytingar orðið á tækniheiminum.

„Tækniheimurinn sem áður einskorðaðist að stórum hluta við Sílikon-dalinn er orðinn dreifðari en hann var. Þaðan hafa komið margar vörur undanfarið sem slegið hafa í gegn, eins og Spotify og Angry Birds. Maður er oft spurður um þetta skandínavíska sprotavor þegar maður fer í viðtöl við bandaríska fjölmiðla. Það er því mikill heiður fyrir Plain Vanilla að vera valið sprotafyrirtæki ársins á Norðurlöndum og ekki síst þegar maður lítur til þess hvað það eru mörg flott fyrirtæki að koma frá þessum löndum,“ segir hann.