Komið er að ögurstundu fyrir íslenskt efnahagslíf. Haldi höfrungahlaup á vinnumarkaði áfram, þar sem sérhver starfsstétt krefst meiri launahækkana en sú sem síðast gerði kjarasamning, blasir mjög dökk mynd við íslensk heimilum og fyrirtækjum þegar verðbólgudraugurinn gengur aftur. Hætt er við því að kjarasamningum SA og verkalýðsfélaganna verði sagt upp vegna óraunhæfra og óskynsamlegra launakrafna opinberra starfsmanna.

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Þessi æfing hefur staðið yfir í eitt og hálft ár og vinnumarkaðurinn er í fullkomnu uppnámi,“ segir Þorsteinn. „Launahækkanir fara stigvaxandi og það stefnir í algjört óefni ef ekkert verður að gert. Við erum á ögurstundu hvað þetta varðar: Annað hvort koma félögin með okkur í þessa umbótavinnu núna eða menn munu reyna að finna leið til þess að gera breytingar án þeirra.

Í mínum huga er ekki valkostur að halda áfram á þessari leið án umbóta á kjarasamningalíkaninu. Við getum ekki framlengt þetta ástand eitt ár enn án þess að við blasi verulegt hættuástand. Það er sorglegt til þess að hugsa, ef það verður raunin, að menn láti þetta tækifæri úr greipum sér ganga enn eina ferðina,“ bætir hann við.

Erum í krísuástandi

Spurður hvers vegna hann sé svo svartsýnn á framhaldið ef ekki semst um raunsæjar launahækkanir segir Þorsteinn að hagtölur sýni að íslenskt efnahagslíf sé mjög berskjaldað fyrir miklum launahækkunum um þessar mundir, einkum útflutningsgreinar.

Þannig að þú ert þá að hringja viðvörunarbjöllum?

„Nei, við erum að gera miklu meira en að hringja viðvörunarbjöllum. Við erum í raun og veru í krísuástandi. Við höfum vaxandi áhyggjur af raungengi íslensku krónunnar á mælikvarða launa, þ.e. hvernig launakostnaður fyrirtækja hér er að hækka í samanburði við nágrannalönd okkar,“ segir hann. Að óbreyttu stefnir í svipað raungengi og var fyrir hrun.

Ítarlegt viðtal við Þorstein er í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .