Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gagnrýnir viðbrögð miðstjórnar Alþýðusambands Íslands við fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 í leiðara sem birtist með fréttabréfi SA í dag. Í honum segir Þorsteinn að mikilvægt sé að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins standi saman við að auka kaupmátt og bæta lífskjör með hóflegum launahækkunum, lágri verðbólgu efnahagslegum stöðugleika.

Þá segir Þorsteinn að þrátt fyrir að margt sé gagnrýnivert í stefnu stjórnvalda þá sé það ekki heppilegt að stefna að harðari deilum við gerð kjarasamninga en áður hefur verið gert líkt og gefið er í skyn í ályktun ASÍ um fjárlagafrumvarpið sem birt var í gær.

Í ályktun ASÍ segir að fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 sé aðför að launafólki t.a.m. vegna fyrirhugaðrar hækkunar á virðisaukaskatti á matvæli, styttingu tímabils atvinnuleysisbóta auk skertra framlaga til jöfnunar örorkubyrða almennra lífeyrissjóða.