*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 13. febrúar 2014 15:38

Þorsteinn hjá SA: Sigmundur þarf að geta tekið gagnrýni

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir gagnrýni forsætisráðherra á fundi Viðskiptaráðs í gær ekki hafa verið smekklega.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Þorsteinn Víglundsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Forsætisráðherra þarf að þola gagnrýni en verður að halda sig á málefnalegum nótum, að sögn Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór stórum í ræðu sinni á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs í gær og baunaði m.a. á forystumenn samtaka atvinnurekenda. Þeir sem fjallað hafa um ræðuna í dag heyrðu fátt annað en skammir og kvartanir. Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði í leiðara blaðsins í dag að þeir sem bjuggust við að fá svör um það hver væri peningastefna stjórnvalda urðu fyrir vonbrigðum. 

„Hann þarf ekki að vera sammála okkur um allt,“ segir Þorsteinn og tekur fram að menn eigi að beina gagnrýni sinni að samtökuknum en ekki einstökum starfsmönnum þeirra. Þar á hann við gagnrýni Sigmundar á Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Ásdís gagnrýndi forsætisráðherra á fundi í síðasta mánuði og sagði ummæli hans um beina erlenda fjárfestingu geta verið skaðlega. VB Sjónvarp ræddi við Ásdísi um málið í síðasta mánuði. 

Þorsteinn segir Samtök atvinnulífsins hafa átt ágætis samstarf við ríkisstjórnina. Um ræðu Sigmundar segir hann:

„Það sem skiptir mestu máli og kom skýrt fram að hann vill eiga gott samstarf við aðila í atvinnulífinu áfram. Mönnum getur greint á um ýmislegt og það verður forsætisráðherra að þola“ segir Þorsteinn og viðurkennir að sér hafi ekki fundist smekklegt hvernig Sigmundur hafi gagnrýnt samtökin.