„Dómarinn meinaði okkur aðgang að réttarhaldinu og hann hélt ekki eftir þeim gögnum sem eiga að hafa verið lögð fram og virðist hafa afgreitt beiðnirnar án þess að kynna sér þær með þeim hætti sem lög kveða á um. Niðurstaðan var úrskurðir um húsleit og haldlagningu hjá fjölda fyrirtækja sem hvorki fyrr né síðar voru grunuð um nokkurt brot," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í samtali við Fréttablaðið . Dótturfyrirtæki Samherja hefur kært Ingveldi Einarsdóttur, fyrrverandi héraðsdómara og nú hæstaréttardómara, vegna húsleitarinnar. Hún er talin hafa verið fljót að veita úrskurðina sem heimiluðu þvingunaraðgerðirnar.

Úrskurðirnir voru veittir vegna rannsóknar Seðlabanka Íslands á meintum brotum Samherja og tengdra fyrirtækja á gjaldeyrislögum.

Seðlabankinn fór upphaflega fram á heimild hjá héraðsdómi til húsleitanna 23. mars 2012. Annar dómari veitti tvo úrskurði sem heimiluðu aðgerðirnar, gegn Samherja og nítján öðrum tengdum fyrirtækjum, daginn eftir. Þremur dögum síðar var ráðist í húsleitirnar. Fréttablaðið segir að í kærunni sé bent á að við upphaf aðgerða hafi úrskurðunum verið andmælt og bent á að ómögulegt sé að framfylgja úrskurðunum. Þeir hafi verið of víðtækir og ónákvæmir. Þá hafi ýmsir aðrir agnúar verið á þeim. Í kjölfarið voru aðgerðirnar stöðvaðar og fór Seðlabankinn með nýjar beiðnir um húsleit og haldlagningu gagna til héraðsdóms. Í nýjum beiðnum hafði verið bætt við tíu félögum en að öðru leyti voru þær, rökstuðningur þeirra og upptalin gögn óbreytt frá fyrri beiðnum. Þá segir í kærunni að aðeins tveimur klukkustundum síðar sama dag hafi Ingveldur kveðið upp nýja úrskurði sem fyrir utan tíu nýju nöfnin voru algjörlega sambærilegir fyrri úrskurðum.

Þorsteinn segir í samtali við Fréttablaðið að ákveðið hafi verið að fara þessa leið að vel athuguðu máli, að kæra til lögreglu. „Við teljum að lögreglan sé eini aðilinn sem getur raunverulega upplýst hvað gerðist í þessu þinghaldi," segir Þorsteinn.