Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 14. júní sl. í máli Þorsteins Hjaltested gegn Kópavogsbæ kemur fram að lögmaður Kópavogsbæjar taldi að Þorsteinn Hjaltested, sem verið hefur svokallaður skattakóngur Íslands sl. tvö ár, hafi átt að gera grein fyrir eignarhaldi Vatnsendalands og „þeirri óvissu sem uppi sé vegna málareksturs afkomenda Sigurðar Hjaltested”.

Þorsteinn krafðist þess að fá tæplega 7 milljarða króna bætur frá bænum vegna vanefnda. Héraðsdómur vísaði kröfunum að stærstum hluta frá dómi, eða rúmlega 6 milljarða kröfum.

Dómari féllst þó ekki á þá röksemd Kópavogsbæjar um að vísa skyldi málinu frá vegna óvissu sem ríkir um eignarhald Vatnsendalands. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku hafa skyldmenni Þorsteins stefnt honum, móður hans og þremur systkinum fyrir dóm vegna eignarréttar Vatnsenda. Þau telja hann ekki réttmætan eiganda landsins og að hvorki honum né föður hans heitnum, Magnúsi Hjaltested, hafi verið heimilt að fá greitt fyrir landið né veðsetja það. Þau telja að landið tilheyri dánarbúi Sigurðar Hjaltested, afa Þorsteins, en í fyrra var skipaður nýr skiptastjóri yfir dánarbúi hans. Um 45 ár eru síðan hann lést.

Þorsteinn hefur þegar fengið greiddar 2.250 milljónir króna fyrir 864 hektara lands í Vatnsenda. Sú greiðsla byggir á svokallaðri eignarnámssátt sem gerð var 30. janúar 2007.

Nánar er fjallað um máli í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.