„Þetta er eins og annað. Þú veist ekkert þegar þú leggur af stað hver niðurstaðan verður,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í samtali við vb.is. Viðræður standa yfir við forsvarsmenn rússneska útgerðarfélagsins Murmansk Troll Fleet um kaup á útgerð Samherja úti fyrir ströndum Vestur-Afríku. Skipin eru gerð út af dótturfyrirtæki Samherja, Kötlu Seafood. Murmansk Troll Fleet er umsvifamesta útgerðarfyrirtæki Rússlands.

Þorsteinn segir að Rússarnir hafi átt frumkvæðið að viðræðunum. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um það hvort fleiri útgerðir hafi viðrað áhuga á því að kaupa Afríkuútgerð Samherja.

Gera út fimm verksmiðjutogara

Samherji keypti útgerðina í Afríku fyrir tólf milljarða af Sjólaskipum í Hafnarfirði í maí árið 2007. Kaupin voru umfangsmesta fjárfesting Samherja á sínum tíma. Viðskiptablaðið sagði fyrir mánuði að Samherji gerði út átta verksmiðjutogara í Vestur-Afríku. Þeir eru nú fimm. Í DV í síðustu viku kom fram að reksturinn ytra sé metin á 20 milljarða króna.

Þorsteinn Már vildi ekki tjá sig ítarlega um málið í samtali við vb.is.

„Það er engin niðurstaða í þessu máli. Stundum verður já og stundum nei. Þetta er bara hluti af því sem maður hefur verið að gera í gegnum árin,“ segir hann.