Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla, hefur nú tekið sæti í stjórn fyrirtækisins Vizido ehf. Vizido ehf. þróar smáforrit fyrir snjallsíma sem aðstoðar fólk við að muna hluti gegnum myndir og myndbönd.

Markmið þess er að veita fólki betra og skipulagðra líf gegnum snjallsímann. Áætla stjórnendur fyrirtækisins að fjöldi notenda verði orðinn 45 milljón manns innan fjögurra ára.

“Ég er spenntur að taka þátt í Vizido en ég hef bæði trú á hugmyndinni og teyminu.“ segir Þorsteinn um stjórnarsetuna. Þorsteinn er, eins og fyrr segir, stofnandi fyrirtækisins Plain Vanilla sem hefur gefið út forritið geysivinsæla QuizUp, en brátt verður sýndur sjónvarpsþáttur byggður á leiknum í Bandaríkjunum.

“Vizido ehf. er íslenskt sprotafyrirtæki sem þróar appið Vizido fyrir alþjóðamarkað. Það er mikill styrkur fyrir okkur að fá Þorstein í stjórnina. Hann kemur með umfangsmikla alþjóðlega reynslu og þekkingu inn í Vizido teymið.” segir Erlendur Steinn, starfandi stjórnarformaður Vizido ehf.