Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er að íhuga framboð fyrir Viðreisn. Frá þessu er greint á RÚV .

Alþingiskosningar hafa verið boðaðar þann 29. október en Viðreisn áformar að skila inn framboðslistum um mánaðarmótin. Í samtali við RÚV segir Þorsteinn að forystumenn flokksins hafi leitað til hans en hann hefur þó enn ekki tekið neina ákvörðun um framboð.

„Ég hef fengið þessa spurningu en ég er ekki alveg búinn að gera það upp við mig hvað ég ætla að gera við hana. En ég ætla allavega að hugsa málið áður en ég svara, ég er ekki alveg búinn að gera það upp við mig,“ segir Þorsteinn við RÚV.

Fréttastofa RÚV hafði einnig samband við Pawel Bartoszek, stærðfræðing og þjóðfélagsrýni, en hann hefur verið sterklega orðaður við framboð í Viðreisn. Vildi hann hvorki játa því né neita að hann ætlaði í framboð.