Þorsteinn G. Gunnarsson hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Opinna kerfa hf. og mun Ragnheiður Harðar Harðardóttir fjármálastjóri Opinna kerfa taka við tímabundið sem forstjóri félagsins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Þorsteinn mun vera áfram fulltrúi Opinna Kerfa í stjórn hátæknigagnaversins sem verður reist á Korputorgi og er í eigu Opinna kerfa, Reiknistofu bankanna, Sýn og Korputorgs. Ragnheiður er með MSc í hagfræði og Cand.Oecon frá Háskóla Íslands ásamt prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Stjórn Opinna kerfa þakkar Þorsteini fyrir frábært starf fyrir félagið og treystir áfram á hans þekkingu og reynslu í uppbyggingu gagnaversins á Korputorgi sem mun verða það tæknilegasta á landinu. Gagnaverið mun fylgja Tier III öryggisstaðli sem tryggir 100% þjónustuöryggi." segir Frosti Bergsson stjórnarformaður Opinna kerfa.

„Það hafa verið forréttindi að vinna með frábærum hópi starfsmanna að uppbyggingu Opinna kerfa á tímum mikilla breytinga. Ég mun áfram sinna nýju gagnaveri sem hefur starfsemi fljótlega. Ég vil þakka starfsfólki Opinna kerfa fyrir gott samstarf á undanförnum árum," segir Þorsteinn G. Gunnarsson.