Þorsteinn M. Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis, mun láta reyna á það á miðvikudaginn hvort hægt verði að fá málskostnað greiddan vegna skaðabótamáls slitastjórnar Glitnis gegn honum, Lárusi Welding og sjö öðrum stjórnarmönnum Glitnis.

Þetta staðfestir Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Glitnis í samtali við Viðskiptablaðið. Málið var fellt niður 21. desember síðastliðinn en munnlegur málflutningur í máli Þorsteins verður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi miðvikudag. Í kjölfarið mun Héraðsdómur dæma um hvort Þorsteinn eigi rétt á greiðslu málskostnaðar úr hendi slitastjórnarinnar.

Skaðabótamál slitastjórnar Glitnis byggðist á því að hún taldi að ákvörðun stjórnar Glitnis um að veita Baugi 15 milljarða víkjandi lán á árunum 2007-2008 hafi verið ábótavant og valdið 6,5 milljarða tjóni. Baugur nýtti lánið til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group, en Baugur var á þeim tíma stærsti eigandi félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .