*

mánudagur, 23. september 2019
Innlent 24. ágúst 2019 13:42

Þorsteinn Loftsson tekjuhæsti skólamaðurinn

Fimm hæst launuðu skólamenn landsins voru með laun á bilinu 2,5 - 3,1 milljónir á mánuði í fyrra.

Ritstjórn
Tveir hæst launu skólamenn landsins starfa við Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræðideild við Háskóla Íslands er hæst launaði skólamaður landsins á síðasta ári en mánaðarlaun Þorsteins námu rúmri 3,1 milljón króna að meðaltali. Þorsteinn einn örfárra Íslendinga sem komist hafa á sérstakan lista matsfyrirtækisins Thomson Reuters yfir þá vísindamenn sem hafa mest áhrif á sínu vísindasviði í heiminum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út á þriðjudag. Í blaðinu má finna upplýsingar um tekjur ríflega 3.700 Íslendinga. Að þessu sinnir eru tveir nýir flokkar í blaðinu. Annars vegar yfir tekjur áhrifavalda á samfélagsmiðlum og hins vegar fasteignasala.

Næstur á lista yfir skólamenn er Pétur Hörður Hannesson, aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands, en mánaðarlaun Péturs voru að meðaltali tæplega 3 milljónir króna. Hann hefur jafnframt gengt stöðu yfirlæknis röntgendeildar Landsspótalans. 

Vilhjálmur Egilsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, er þriðji í röðinni með 2,7 milljónir á mánuði. Þá kemur Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskóla Reykjavíkur með rúmar 2,5 milljón á mánuði. Fimmti er Páll Jensson, prófessor við Háskóla Reykjavíkur og verkfræðingur, en meðalmánaðarlaun Páls voru 2.469 þúsund krónur á síðasta ári.

Útreikningar Frjálsrar verslunar byggja á útsvarsskyldum tekjur á árinu 2018 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna starfa á fyrri ára. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér