Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur sent frá sér afsökunarbeiðni sem birtist sem heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann að ámælisverðir viðskiptahættir fengu að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu. Veikleikar hafi verið í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. „Við brugðumst ekki við eins og okkur bar.“

Þetta hafi valdið uppnámi hjá starfsfólki, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. „Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar,“ skrifar Þorsteinn og bætir við að Samherji vilji draga lærdóm af mistökunum og tryggja að ekkert slíkt gerist aftur.

„Mistök okkar í Namibíu eru ekki síst okkur sjálfum mikil vonbrigði. Við munum ekki láta slíkt henda aftur.“

Ítarlegri yfirlýsingu er að finna á heimasíðu Samherja þar sem Þorsteinn segir þó að afstaða hans og Samherja sé að engin refsiverð brot hafi verið framin í Namibíu af hálfu fyrirtækja á þeirra vegum eða starfsmanna þeirra „ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt,“ og vísar þar í Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara í Samherjamálinu.

„Engu að síður ber ég sem æðsti stjórnandi Samherja ábyrgð á því að hafa látið þau vinnubrögð, sem þar voru viðhöfð, viðgangast,“ skrifar Þorsteinn.