*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 22. júní 2021 08:50

Þorsteinn Már biðst afsökunar

„Mistök okkar í Namibíu eru ekki síst okkur sjálfum mikil vonbrigði. Við munum ekki láta slíkt henda aftur.“

Ritstjórn
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja
Aðsend mynd

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur sent frá sér afsökunarbeiðni sem birtist sem heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann að ámælisverðir viðskiptahættir fengu að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu. Veikleikar hafi verið í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. „Við brugðumst ekki við eins og okkur bar.“

Þetta hafi valdið uppnámi hjá starfsfólki, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. „Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar,“ skrifar Þorsteinn og bætir við að Samherji vilji draga lærdóm af mistökunum og tryggja að ekkert slíkt gerist aftur.

„Mistök okkar í Namibíu eru ekki síst okkur sjálfum mikil vonbrigði. Við munum ekki láta slíkt henda aftur.“

Ítarlegri yfirlýsingu er að finna á heimasíðu Samherja þar sem Þorsteinn segir þó að afstaða hans og Samherja sé að engin refsiverð brot hafi verið framin í Namibíu af hálfu fyrirtækja á þeirra vegum eða starfsmanna þeirra „ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt,“ og vísar þar í Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara í Samherjamálinu.

„Engu að síður ber ég sem æðsti stjórnandi Samherja ábyrgð á því að hafa látið þau vinnubrögð, sem þar voru viðhöfð, viðgangast,“ skrifar Þorsteinn.