Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að innrás Seðlabankans á skrifstofur fyrirtækisins fyrir tæpum fjórum árum og sú atburðarás sem fylgdi í kjölfarið sé fordæmalaus misbeiting á valdi sem gerð hafi verið á skipulegan hátt til að valda sem mestu tjóni. Nauðsynlegt sé að æðsta stjórn bankans axli ábyrgð vegna málsins.

Þetta kemur fram í bréfi sem Þorsteinn Már sendi starfsmönnum Samherja og birt hefur verið í heild sinni á vef fyrirtækisins. Þar kveðst hann vera þakklátur og ánægður með þá niðurstöðu að málið hafi verið fellt niður eftir nær fjögurra ára rannsókn. Málið hefði getað klárast mun fyrr ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá Seðlabankanum, en hins vegar hafi alltaf verið lengra seilst til að finna höggstað á fyrirtækinu til þess að réttlæta þær hörðu aðgerðir sem beitt var í upphafi rannsóknar.

Stofnað til málsins á kolröngum forsendum

Þorsteinn segir að umfang aðgerða Seðlabankans hafi gefið til kynna að hér væri mjög alvarlegt mál á ferðinni en samt hafi stjórnendur ekki fengið að vita hverjar ásakanirnar voru.

„Þegar við fengum loks rökstuðning Seðlabankans fyrir húsleitinni kom í ljós að helstu ásakanirnar byggðust á röngum útreikningum á fiskverði (útreikningar á vegnu meðaltali). Þetta var síðar staðfest í úrskurði héraðsdóms þar sem fram kom að Seðlabankinn hefði ekki reiknað rétt. Þá þegar hefðu stjórnendur Seðlabankans átt að staldra við og íhuga hvert þetta mál stefndi, sem stofnað var til í upphafi á kolröngum forsendum,“ skrifar Þorsteinn.

Hann segir að málareksturinn hafi haft mjög íþyngjandi áhrif á störf allra hjá fyrirtækinu og yfirlýsing um samstarf hafi miðað að því að auðvelda starfsfólki Seðlabankans að komast að hinu rétta í málinu áður en skaðinn yrði meiri. Á það hafi hins vegar ekki verið hlustað og jafnvel hafi verið gengið enn lengra í að gera starfsemi Samherja tortryggilega og réttlæta aðförina.

Fjölmiðlar mættir á undan starfsmönnum Seðlabankans

„Fyrir tæpum fjórum árum fór Seðlabankinn af stað með látum og offorsi inn á skrifstofur Samherja. Þess var gætt að fjölmiðlar voru mættir við skrifstofur félagsins með myndavélar á undan starfsmönnum Seðlabankans auk þess sem bankinn sendi út tilkynningu um allan heim á íslensku og ensku fljótlega eftir að húsleitin hófst. Allt var gert til að draga upp þá mynd af okkur í fjölmiðlum að við værum glæpamenn,“ skrifar Þorsteinn.

Hann segir að sem dæmi um offorsið afi hann setið í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara vegna kæru Seðlabankans þar sem hann hafi verið ásakaður um alvarlegt og gróft brot yfir langt tímabil sem fólst í að selja samtals 5 tonn af bleikju á 39 mánaða tímabili, á verði sem var tveimur milljónum króna of lágt að mati Seðlabankans.

„Þegar ég bað um gögn til rökstuðnings kæru Seðlabankans um verð annarra útflytjenda á bleikju til Þýskalands kom í ljós að engin slík gögn voru til þar sem enginn annar seldi bleikju til Þýskalands á sama tímabili. Þess í stað sýndi starfsmaður sérstaks saksóknara mér skýrslu Seðlabankans þar sem bankinn bar saman verð á bleikju, sem við seldum til Finnlands, við 5 tonnin sem seld voru til Þýskalands,“ segir hann.

Þorsteinn segir að til að fá sem neikvæðasta niðurstöðu úr þessum samanburði hafi Seðlabankinn orðið að horfa framhjá gjörólíkum afhendingarskilmálum og mismunandi markaðsaðstæðum. Í öðru tilfellinu hafi verið búið að byggja upp markað og í hinu hafi verið reynt að búa til nýjan markað.

Markmiðið að valda skaða

„Eins og þetta einfalda dæmi sýnir hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta mál eða leysa það fyrr. Í hvert sinn sem við fengum aðgang að gögnum málsins var unnt að sýna fram á að ásakanir bankans voru ekki á rökum reistar. Þessi vinnubrögð horfa þannig við mér að markmiðið hafi fyrst og fremst verið að valda okkur skaða frekar en að sannreyna ásakanir um meint lögbrot,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að því miður hafi margir stokkið á vagninn með Seðlabankanum. Hann hafi oft þurft að horfa upp á að vegið væri á ósmekklegan hátt að mannorði sínu og starfsmanna á opinberum vettvangi. Tjónið sem af þessu hafi hlotist sé gríðarlegt. Þar sé honum ekki efst í huga fjárhagslegt tjón heldur hvernig þessar „skipulögðu ofsóknir“ hafi spillt orðspori fyrirtækisins um allan heim.

Skipuleg og fordæmalaus misbeiting á valdi

„Mitt mat er að innrás Seðlabankans og sú atburðarás sem fylgdi í kjölfarið sé fordæmalaus misbeiting á valdi sem gerð var á skipulegan hátt til að valda sem mestu tjóni,“ skrifar Þorsteinn.

Hann segir að löngu sé tímabært að æðsta stjórn bankans axli ábyrgð með því að grípa inn í og stöðva þessa misbeitingu valds og kalli menn til ábyrgðar til að tryggja að svona lagað endurtaki sig ekki. Hann hyggist senda bankaráði opið bréf þess efnis á næstu dögum.

Bréf Þorsteins Más má lesa í heild sinni hér.