Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, keypti hlutabréf fyrir 60 milljónir króna í útboði Síldarvinnslunnar sem fór fram 10.-12. maí síðastliðinn, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þorsteinn Már er jafnframt stjórnarformaður Síldarvinnslunnar en Samherji er stærsti hluthafi SVN með 32,6% hlut, þrátt fyrir að hafa selt um 12% hlut í útboðinu. Viðskipti með hlutabréf Síldarvinnslunnar á aðalmarkaði Nasdaq hófust í morgun.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, keypti 86 þúsund hluti fyrir rúmar 5 milljónir króna í útboðinu ásamt því að fá úthlutað 14 þúsund hluti frá fyrirtækinu.

Arna Bryndís Baldvins McClure, sem hefur verið nefnd í umræðunni um svokallaða skæruliðasveit Samherja, keypti fyrir 870 þúsund krónur í SVN í útboðinu. Arna Bryndís er varamaður í stjórn Síldarvinnslunnar.

Fjárfestingafélagið Snæból, í eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, keypti um 1% hlut í SVN. Guðni Rafn Eiríksson, eigandi Apple-umboðsins á Íslandi, keypti 0,5% hlut í Síldarvinnslunni í gegnum félagið A80 ehf.

Stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar eftir útboðið er sem fyrr segir Samherji með 32,6% hlut. Kjálkanes fylgir þar á eftir með 19,2%. Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupsstað á 11% hlut og Gildi lífeyrissjóður 9,9% hlut. Eignarhaldsfélagið Snæfugl ehf. er fimmti stærsti hluthafinn með 4,3% hlut.