Þorsteinn Már Baldvinsson, mun stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri Samherja á meðan niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á meintunm brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir. Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, hefur tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja.

Þá segir í tilkynningunni að rannsókn alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein muni halda áfram.

„Samherji gegnir mikilvægu hlutverki í sjávarútvegi á alþjóðavísu og berum við ábyrgð gagnvart okkar fólki og viðskiptavinum. Ég er dapur yfir þessum kringumstæðum en ég mun gera mitt besta að gæta hagsmuna Samherja og starfsfólksins”, er haft eftir Björgólfi í tilkynningunni.

Þá segir að enginn stjórnvöld hafi sett sig í samband við Samherja en félagið muni starfa með þeim verði það gert. Í gær kom fram að héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri væru með málið til skoðunar.

Björgólfur vann um árabil hjá Samherja og tengdum félögum. Björgólfur var framkvæmdastjóri nýsköpunar- og þróunarsviðs Samherja frá 1996, fjármálastjóri Útgerðarfélags Akureyringa frá 1992-1996 og framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar frá 1999-2005 en Samherji er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar.

Yfirlýsing Samherja í heild sinni:

Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair Group, hefur tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja. Á komandi dögum mun Björgólfur leggja áherslu á að hitta starfsfólk og helstu hagsmunaaðila.

Yfirstandandi rannsókn, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun halda áfram og mun Wikborg Rein heyra beint undir stjórn félagsins.

„Hjá Samherja starfa um 850 manns á Íslandi og fjöldi manns erlendis. Við tökum þetta mikilvæga skref til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknarinnar. Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur”, segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.

Til þessa hafa engin yfirvöld haft samband við Samherja en við munum að sjálfsögðu starfa með þeim stjórnvöldum sem kunna að sýna starfsemi Samherja á Íslandi, í Namibíu eða annars staðar áhuga.

„Samherji gegnir mikilvægu hlutverki í sjávarútvegi á alþjóðavísu og berum við ábyrgð gagnvart okkar fólki og viðskiptavinum. Ég er dapur yfir þessum kringumstæðum en ég mun gera mitt besta að gæta hagsmuna Samherja og starfsfólksins”, segir Björgólfur Jóhannsson.

Ekki er að vænta frekari umfjöllunar af hálfu Samherja fyrr en staðreyndir úr ofangreindri rannsókn taka á sig skýrari mynd.“