„Ég reikna með að þau fyrirtæki sem Samherji á hlut í stundi einhverjar veiðar þarna áfram. Það fer eftir samningum Evrópusambandsins við einstök ríki Afríku,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Eins og vb.is hefur greint frá keypti rússneska útgerðarfyrirtækið Murmansk Trawl Fleet og fleiri fyrirtæki rekstur Kötlu Seafood Canarias, dótturfyrirtæki Samherja á Kanaríeyjum og félög því tengd. Útgerðirnar hafa stundað veiðar undan ströndum Vestur-Afríku.

Murmansk Trawl Fleet er eitt af umsvifamestu útgerðarfyrirtækjum Rússlands.

Þorsteinn segir söluna ekki hafa áhrif á rekstur Samherja heldur aðeins þau félög sem tengdust Kötlu Seafood Canarias.

Þorsteinn vildi ekkert tjá sig um kaupverð þegar eftir því var leitað. Greint var frá því í kringum kaup Samherja á Kötlu Seafood af Sjólaskipum í Hafnarfirði árið 2007 að kaupverðið hafi numið tólf milljörðum króna.