Þorsteinn Steinsson hefur verið ráðinn bæjarstjóri Grundarfjarðar,en gengið var frá ráðningu hans á fundi bæjarstjórnar síðdegis í gær. Alls sóttu 24 um starfið en þrír drógu umsókn sína til baka. Þetta kemur fram í frétt á vef Grundarfjarðarbæjar . Hann tekur við af Birni Steinari Pálmasyni sem lét af störfum á dögunum, en Björn Steinar var bæjarstjóri í Grundarfirði síðustu fjögur árin.

Þorsteinn segir nýja starfið leggjast feiknavel í sig. „Þetta er spennandi verkefni framundan og þarna er lifandi og skemmtilegt samfélag sem byggir á sjávarlífi. Ég held að þetta geti verið mjög spennandi að skipta um starf," segir Þorsteinn.

Þorsteinn var áður sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps í sextán ár. Hann lét af þeim störfum í vor en mun starfa þar uns nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn að ósk nýrrar sveitarstjórnar. Aðspurður um hvers vegna hann hefur ákveðið að skipta um starf að svo stöddu segir hann að það hafi verið mörg skemmtileg verkefni í Vopnafjarðarhreppi sem hann vildi vinna framgang á og telur að hafi tekist nokkuð mæta vel og að hann sé mjög ánægður með það. Hann segist þó telja eins og sannur íþróttamaður að gott sé að breyta til á toppnum og fara eitthvað annað. „Núna var gaman að breyta til og það er alltaf gott að hrista upp og hleypa nýjum vöndum að," segir Þorsteinn.

Áætlað er að Þorsteinn taki til starfa um miðjan ágúst. Sigurlaug R. Sævarsdóttir, skrifstofustjóri og staðgengill bæjarstjóra, mun gega störfum bæjarstjóra þar til Þorsteinn tekur til starfa.