„Það er ekki hægt að hunsa þjóðarvilja án þess að skapa gjá á milli þings og þjóðar. Það væri sárt að sjá Sjálfstæðisflokkinn þurfa að gjalda fyrir það,“ segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um þau vonbrigði sem hann hefur orðið fyrir með það hvernig forysta flokksins hef­ur haldið á Evrópumálunum síðustu vikurnar.

Þorsteinn hefur gagnrýnt þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar harkalega að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og sagt það mestu svik íslenskra stjórnmála . Hann fer m.a. yfir málið í viðtali í helgarblaði DV . Þar segir hann m.a. að sér hafi brugðið þegar hann las stjórnarsáttmála ríkisstjórninnar þar sem hvergi er minnst á Evrópusam­bandið heldur lögð áhersla á að Ís­lendingar finni sér nýja vini í utanrík­ismálum.

„Ég skil ekki á hvaða braut við erum ef við ætlum að fylgja pólitík forsetans og halla okkur að Rússlandi og Kína. Einhverra hluta vegna hef­ur forsetinn fengið að hafa óeðlilega mikil áhrif á utanríkisstefnu ríkis­stjórnarinnar. Það er ekki eins og það á að vera,“ segir Þorsteinn og telur ekki marga geta sett sig í spor formanns Sjálfstæðis­flokksins í ESB-málinu.

„Ég skil mætavel hversu erfitt það er að horfa til margra sjónarmiða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stór flokkur þar sem margar ólíkar raddir sameinast um grunngildi flokksins, tekist er á um annað. Þess vegna hef­ ur það skipt máli hvernig ákvarðanir eru teknar innan flokksins. Það getur skipt sköpum þegar sætta á stríðandi fylkingar. Það hvernig ákvarð­anir eru teknar getur skipt meira máli en endanleg niðurstaða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið klofinn vegna afstöðu manna til Evrópusambands­ins. Fyrir formann Sjálfstæðisflokks­ins var það því ákjósanleg staða að bera áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið undir þjóðina og fá þannig endanlega lausn í málið,“ segir hann.

Um umfjölluninni kemur fram að undanfarið hafi dregið verulega úr andstöðunni við að­ild að Evrópusambandinu og nú er svo komið að mikill meirihluti þjóðarinnar vill klára aðildar­viðræður. Fyrir kosningar lofuðu báðir ríkisstjórnarflokkarnir þjóðar­atkvæðagreiðslu um framhaldið

„Ég gat ekki setið þegjandi þegar hafa átti þessi loforð að engu. Það er ekki hægt að afgreiða svona mál án þess að um það skapist umræða. Það er ekki hægt að hverfa frá lýðræðisleg­ um gildum flokksins án þess að mæta andstöðu,“ segir Þorsteinn. Hann gefur lítið fyrir rök um póli­tískan ómöguleika. Af því að afstaða ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki breyst frá kosningum.

„Ríkisstjórn hefur það í hendi sér hvernig gengið er til þjóðaratkvæða­greiðslu. Hún getur ákveðið að halda ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðarvilja er framfylgt í kjöl­farið. Eða hún getur haldið fráfarandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem af­staða ríkisstjórnarinnar er eindregin og hún fer frá völdum ef niðurstað­an er á skjön við hana og leyfir öðrum að framfylgja þjóðarviljanum. Hún hefur það í hendi sér hvort hún leggur sjálfa sig undir eða ekki. Það þvingar enginn menn til að segja af sér. Að sama skapi getur ríkisstjórnin tímasett slíkar kosningar eftir hentug­leika. Hún gæti slegið því á frest fram undir lok kjörtímabilsins. Ég hugsa að flestir myndu sýna því skilning, þó að það væri vissulega verri kostur því þá er verið að sóa dýrmætum tíma. Það myndi hins vegar gera ríkisstjórn­inni kleift að leggja þetta mál til hlið­ar um stund og sinna öðrum verk­ um. Um leið væri kjósendum falið að taka afstöðu til framhaldsins í næstu alþingis kosningum,“ segir Þorsteinn.