Ef ríkisstjórnin nýtti fullveldisrétt sinn til að breyta lengd tommustokksins jafn oft og gengi krónunnar myndi ört fækka í stétt byggingameistara. Það er hverju mannsbarni ljóst. Á nákvæmlega sama hátt er óvissan um stærð og verðgildi frá einum degi til annars Þrándur í Götu þeirra sem ætla að skapa ný verðmæti fyrir búskap þjóðarinnar.

Þetta sagði Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, í ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) sem nú stendur yfir.

Þorsteinn vék í ræðu sinni að skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um samkeppnisstöðu Íslands sem birt var í sl. haust. Þorsteinn rifjaði upp að skýrslan hefði dregið fram það sem hann kallaði hrollvekjandi staðreyndir. Þá sagði Þorsteinn að þrátt fyrir að skipuð hefði verið nefnd til að fjalla um úrlausnarefni skýrslunnar sýndi það veruleikaflóttann í íslenskri stjórnmálaumræðu að nú í aðdraganda kosninga væri skýrslan hvorki umræðuefni né úrlausnarefni.

„Í skýrslunni má lesa þá dapurlegu staðreynd að framleiðni á hverja unna klukkustund í íslenskum þjóðarbúskap er á plani með Grikklandi. Þrettán þúsund vinnandi Íslendingar í þjónustu þurfa að kalla á ný atvinnutækifæri bara til þess að gera þennan mikilvæga þátt efnahagslífsins samkeppnishæfan,“ sagði Þorsteinn.

„Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin sem stenst alþjóðlegan samanburð í þessu efni bæði að því er varðar vinnu og fjármagn. En þá bregður svo við að þeir sem ráða ríkjum hafa í full fjögur ár barist fyrir því að vinda ofan af þessum mikla efnahagslega árangri sem tekið hefur tvo áratugi að ná. Meðan atvinnulífið nær ekki framleiðni á við það sem best gerist í grannlöndunum geta stjórnmálamennirnir aldrei tryggt samkeppnishæfni velferðarkerfisins. Loforð þar um hljóma eins og hvellandi bjalla og klingjandi málmur.“

Þorsteinn vék sem fyrr segir að gjaldmiðli landsins í ræðu sinni og minnti á að gjaldmiðilinn væri mælieining þeirra verðmæta sem búa að baki honum. Hins vegar sé krónan ekki gjaldgeng í milliríkjaviðskiptum og óvissari mælieining en aðrar þjóðir búi við. Þá spurði Þorsteinn hvers vegna það væri keppiefli að halda krónunni.

„Tvöföldun útflutningsframleiðslunnar kallar á að menn og konur, framtaks og hugvits, geti fullnýtt orku sína og sköpunarmátt,“ sagði Þorsteinn.

„Til þess þurfum við að fullnýta möguleika okkar á innri markaði Evrópu sem er okkar heimamarkaður og stóri stökkpallur í aðrar áttir. Það gerum við ekki með mynt sem ekki er gjaldgeng þar og heldur engu verðgildi nema með höftum eða strangari varúðarreglum en aðrar þjóðir sæta. Svo einfalt er það.“