Mikil gróska er í fyrirtækjaflórunni hér á landi. Á sama tíma eru slæmu fréttirnar þær að rúmur helmingur landsmanna telur starfsumhverfi lítilla fyrirtækja slæmt, að mati Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA)

Þorsteinn skrifar pistil um málið á vef SA . Hann segir nýjar hagtölur sem Hagstofan hafi unnið fyrir SA sýna að hátt í hundrað þúsund manns vinni hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Launagreiðslur þeirra voru um 2/3 heildarlaunagreiðslna í atvinnulífinu. Það sýni að lítil fyrirtæki hér á landi séu því talsvert stór og verði að hlúa að þeim.

„Hagtölur um lítil og meðalstór fyrirtæki hafa ekki legið fyrir á Íslandi til þessa en Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að úr því verði bætt. Því fóru SA þess á leit við Hagstofuna að draga upp mynd af umfangi og mikilvægi þessara fyrirtækja. Sú mynd sem birtist er lífleg og björt og margt sem vekur athygli. [...] Á hverju ári er mikill fjöldi fyrirtækja stofnaður og álíka fjöldi hættir starfsemi Þannig voru 4.000 fyrirtæki starfandi árið 2012 sem ekki voru til árið 2010 og tæplega 3.900 fyrirtæki sem voru starfandi árið 2010 höfðu hætt starfsemi árið 2012. Nánast öll ný fyrirtæki eru örfyrirtæki en á þessu tímabili urðu rúmlega 100 lítil og meðalstór fyrirtæki til,“ skrifar hann.