Á fundi Samtaka atvinnulífsins, Hver bakar þjóðarkökuna? sem stendur nú yfir í Hörpu, sagði Þorsteinn Víglundsson, frambjóðandi Viðreisnar fyrir komandi alþingiskosningar, að það væri ekki stjórnmálamanna að skapa störf. Hægt er að fylgjast með fundinum hér .

Hann taldi stjórnmálamenn eyða of miklum tíma í það að ákveða hvaða störf eigi að skapa. Hann bendir jafnframt á að stjórnmálamenn eigi frekar að einbeita sér að því að auka framleiðni og landsframleiðslu á mann. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sló í svipaðan tón og Þorsteinn og taldi það ekki verkefni stjórnmálamanna að skapa störf. Hann sagði að við ættum ekki að vera Stalínistar í því samhengi.

Varðandi skattaumhverfi á Íslandi þá telur Þorsteinn einnig mikilvægt að viðhalda ákveðnum stöðugleika. Hann telur skattastefnu hafa verið of öfgakennda og sveiflast mikið á tímum hægri- og vinstri stjórna. „Það er ekki góð viðleitni að sveiflast á milli öfga,“ segir Þorsteinn einnig. Hann bendir á þær hugmyndir sem hafa komið upp úr samstarfsvettvangi  um aukna hagsæld, sem að Sigurður Ingi forsætisráðherra hefur áður vísað til.