*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Fólk 20. ágúst 2019 09:04

Þorsteinn tekur við hjá Deloitte

Þorsteinn Pétur Guðjónsson tekur við af Sigurði Páli Haukssyni sem forstjóri Deloitte á Íslandi þann 14. september.

Ritstjórn
Þorsteinn Pétur Guðjónsson, nýr forstjóri Deloitte.

Þorsteinn Pétur Guðjónsson verður næsti forstjóri Deloitte á Íslandi. Hann tekur formlega við af Sigurði Páli Haukssyni á aðalfundi félagsins þann 14. september, en Sigurður Páll hefur sinnt forstjórastarfinu undanfarin 6 ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þorsteinn Pétur hefur starfað hjá Deloitte í um 20 ár, þar af sem eigandi frá árinu 2008 og sviðsstjóri endurskoðunar- og reikningsskila frá árinu 2014. Þorsteinn Pétur hefur yfirgripsmikla reynslu af endurskoðun og ráðgjöf og hefur starfað fyrir viðskiptavini Deloitte í öllum helstu atvinnugreinum, þá sérstaklega fyrir alþjóðleg fyrirtæki.

„Efst í huga mér á þessum tímapunkti er þakklæti fyrir það traust sem mér er sýnt og fyrir framlag Sigurðar Páls síðastliðin ár. Ég hlakka mikið til að takast á við þetta krefjandi verkefni og innleiða 2023 stefnu félagsins með þeim frábæra hópi sem hér starfar. Við erum hluti af stærsta endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtæki heims og erum svo lánsöm að vinna með öflugustu fyrirtækjum landsins. Okkur eru því allir vegir færir og við munum eftir sem áður ávallt stefna á að vera leiðandi á okkar markaði og hafa þýðingarmikil áhrif með okkar störfum“, er haft eftir Þorsteini í tilkynningunni.

„Undanfarin sex ár hef ég með frábæru samstarfsfólki leitt stór skref inn í framtíðina með breytingum á nær öllum sviðum félagsins. Starfsmönnum hefur fjölgað um 100, veltan aukist um 2 ma. kr. og sviðum fjölgað. Af þessum árangri getum við öll verið stolt og ég hlakka til að sinna nýjum verkefnum hjá Deloitte. Það eru forréttindi að starfa hjá félagi þar sem hægt er að reyna sig í ólíkum hlutverkum. Framundan er stefnumótun Deloitte hér heima og á heimsvísu til ársins 2023 og því vel við hæfi að nýr maður taki við á slíkum tímamótum og ég treysti Þorsteini Pétri til að leiða fyrirtækið inn í næsta kafla“, segir Sigurður Páll Haukson, fráfarandi forstjóri.