„Ég held að það sé mjög hollt að nálgast viðfangsefnið með þeim hætti að spyrja hvort viðkomandi útgjaldaliðir séu nauðsynlegir eða ekki, segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, aðspurður um niðurskurðartillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Tillögurnar voru kynntar í gær.

Þorsteinn segir að SA hafi kallað eftir því að farið yrði meira í forgangsröðun um það hvaða þjónustu eigi að sinna og hvað ekki. „Við teljum að það það hafi ekki verið nægjanlega langt gengið í niðurskurði á ríkisútgjöldum,“ segir Þorsteinn.

„Við höfum bent á það að ef maður reiknar ríkisútgjöld án fjármagnsliða og atvinnuleysisbóta á föstu verðlagi þá eru þau 60 milljörðum hærri en þau voru árið 2000. Sem bendir til þess að enn sé talsvert svigrúm til niðurskurðar,“ segir Þorsteinn.

Aðspurður segir Þorsteinn að vafalaust hefði mátt ganga lengra á sumum sviðum niðurskurðarins. „En þetta er ágætis byrjun og ég held að það sé mikilvægt að menn nýti þá allavega tækifærið hvað þessar hugmyndir varðar, að tryggja að þær verði að miklu leyti að veruleika. Þannig að menn tryggi að sú hagræðing, sem þarna er möguleg, nái fram að ganga,“ segir hann.