Þorsteinn Víglundsson, sem tók við starfi framkvæmdarstjóra Samtaka atvinnulífsins árið 2013, hefur ákveðið að fara í framboð fyrir Viðreisn. Þetta kemur fram á vef samtakanna, en hann hefur nú þegar látið af störfum.

Hannes G. Sigurðsson, sem hefur gengt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra SA, tekur við af Þorsteini. Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, segir það mikinn missi fyrir samtökin að missa hann, en fagnar því að sjá öflugan mann gefa kost á sér:

„Undanfarin ár hafa mörg mjög jákvæð skref verið stigin í íslensku atvinnulífi og hefur Þorsteinn stýrt starfi SA á tímum mikilla breytinga.  Hann hefur verið mjög farsæll í sínum störfum og verið lykilmaður við að móta nýtt vinnumarkaðslíkan á íslenskum vinnumarkaði. Það er eftirsjá af Þorsteini hjá SA, en um leið er ánægjulegt að sjá öflugan forystumann í íslensku atvinnulífi gefa kost á sér í stjórnmálin. Fyrir hönd SA þakka ég honum kærlega fyrir frábært starf og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.“