*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 18. febrúar 2021 12:35

Þórunn býður sig fram í stjórn Icelandair

Forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands býður sig fram í stjórn Icelandair í annað sinn en hún náði ekki kjöri 2019.

Ritstjórn
Þórunn Reynisdóttir hefur starfað í ferðaþjónustu um árabil.
Aðsend mynd

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, hyggst bjóða sig fram til stjórnar Icelandair Group, en þetta staðfesti hún við Túrista. Hún verður þar með sjöundi frambjóðandinn til stjórnar Icelandair sem verður kosin á aðalfundi þann 12. mars næstkomandi.

Þórunn mun á næstunni óska eftir fundum með stærstu hluthöfum félagsins ásamt því að kynna sig fyrir almennum hluthöfum.

 „Eigendahópur Icelandair hefur gjörbreyst eftir hlutafjárútboðið og ég geri ráð fyrir að allir þessir nýju eigendur vilji fá reynslumikið fólk í viðspyrnuna og þess vegna býð ég fram,” er haft eftir Þórunni í frétt Túrista. „Öll flugfélög munu berjast um athyglina og þá er eins gott að í brúnni sé fólk sem þekki vel til helstu markaða félagsins.” 

Þórunn hefur í gegnum tíðina starfað sem stöðvarstjóri Icelandair á Kastrup í Kaupmannahöfn, hótelstjóri Hótel Loftleiða í þrjú ár og stýrði síðar sölumálum Hertz bílaleigunnar um sex ára tímabil þegar það var í eigu Icelandair. Undanfarin sex ár hefur hún verið forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands en hún áður hafði hún unnið sem markaðsstjóri Iceland Express og sem forstjóri ferðaskrifstofunnar Destination Europe í Bandaríkjunum. Þórunn bauð sig fram til stjórnar Icelandair í mars 2019 en náði ekki kjöri. 

Þórunn telur að ekki sé hætta á hagsmunaárekstrum vegna stöðu hennar hjá Ferðaskrifstofu Íslands, samkeppnisaðila ferðaskrifstofunnar VITA sem er dótturfyrirtæki Icelandair. Hún bendir á að stærsti hluti tekna Icelandair komi frá erlendum mörkuðum og þá sérstaklega Bandaríkjunum, þar sem hún hefur mikla reynslu. Þórunn telur einnig að Icelandair eigi fyrst og fremst að einbeita sér að flugrekstri. 

Tilnefningarnefnd Icelandair hefur lagt til að núverandi stjórn verði endurkjörin. Í stjórninni sitja Guðmundur Hafsteinsson, John F. Thomas, Nina Jonsson, Svafa Grönfeldt og Úlfar Steindórsson sem er formaður stjórnar. Steinn Logi Björnsson, fyrrum framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, hefur einnig boðið sig fram til stjórnar flugfélagsins, en þetta staðfesti hann við mbl.is

Sjá einnig: Segir Icelandair skekkja samkeppni

Í byrjun mánaðarins gagnrýndi Þórunn samkeppnisumhverfið á ferðaskrifstofumarkaðnum í viðtali við Morgunblaðið. Hún sagði það vera erfitt að eiga í viðskiptum við eina íslenska millilandaflugfélagið, meðan það rekur eina stærstu ferðaskrifstofu landsins. Stjórnendur flugfélagsins sitji einnig í stjórn VITA og því geti verið erfitt að ræða við umrædda stjórnendur.