Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku frá og með deginum í dag. Þórunn hefur gegnt starfi formanns þingflokks Samfylkingarinnar. Hún greindi flokksfélögum sínum frá þessu í dag. Í tilkynningu frá Þórunni segir að hún muni halda áfram pólitísku starfi í þágu kvenfrelsis, umhverfisverndar og jafnaðarstefnu innan Samfylkingarinnar, en ákvörðunin um að láta af þingmennsku er endanlega og tekin eftir vandlega íhugun. Hún hefur fjórum sinnum verið kosin á þing.

„Í umboði stuðningsfólks jafnaðarstefnunnar hef ég starfað í stjórnarandstöðu, í stjórnarliði, sem ráðherra og formaður þingflokks. Nú er komið  að því fyrir mig að hafa vistaskipti og huga að nýjum viðfangsefnum. Á þessum tímamótum  er mér efst í huga þakklæti til samferðafólks og félaga í Samfylkingunni frá stofnun hennar,“ segir Þórunn.