Ein helsta áskorun sem Ísland stendur frammi fyrir er að líta í baksýnisspegilinn, líta á það sem miður fór og dæma þá sem brutu lög. Þetta sagði Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor á ráðstefnu AGS, stjórnvalda og Seðlabankans í Hörpu í dag. Þorvaldur stýrir þriðju umræðu ráðstefnunnar, sem fjallar um áskoranir framundan.

Hann hóf mál sitt á að vísa í 52. grein laga um fjármálafyrirtæki frá 2002, þar sem fjallað er um hæfi stjórnenda og stjórnarmanna. Hann benti á að þeir skulu hafa óflekkað mannorð og mega ekki hafa fundist sekir um brot á lögum á síðustu tíu árum.

Þorvaldur ítrekaði mikilvægi þess að greina hvað fór úrskeiðis. Hann sagði að við flugslys sé ekki sú leið farin að líta fram á veginn, heldur er strax hafist við rannsókn. Hann sagði sama gilda um hrun banka.